Keflvíkingar hafa náð samkomulagi við bandarískan leikmann fyrir komandi leiktíð í Dominos-deildinni og þessi nýi kani liðsins er tengdur NBA-deildinni.
Körfuboltavefurinn Sportando segir frá því að miðherjinn Chu Maduabum hafi samið við Keflavíkurliðið um að spila með liðinu tímabilið 2015-16.
NBA-liðið Los Angeles Lakers valdi Chu Maduabum í nýliðavalinu árið 2011 en Lakers-menn tóku hann númer 56 í nýliðavalinu fyrir fimm árum.
Chu Maduabum spilaði reyndar aldrei í NBA-deildinni þrátt fyrir að hafa verið skipt frá Lakers til Denver Nuggets. Hann spilaði í D-deildinni og hefur síðan flakkað á milli liða í Katar, Eistlandi og Mongólíu.
Í febrúarmánuði síðastliðnum var hann samt óvænt hluti af skiptum Philadelphia 76ers og Denver Nuggets. 76ers á þar með réttinn á honum spili hann í NBA-deildinni. Maduabum segist sjálfur í viðtali í sumar að hann ætli sér að komast aftur í NBA-deildina.
Chukwudiebere Maduabum eins og hann heitir fullu nafni er 24 ára gamall og 206 sentímetrar á hæð. Hann er fæddur í Nígeríu og spilaði síðast með eistneska liðinu Tallinna Kalev þar sem hann var með 7,6 stig og 5,1 frákast að meðaltali í leik.
Valinn af Los Angeles Lakers en spilar með Keflavík í vetur
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
