Hrafnhildur Lúthersdóttir náði þriðja besta tímanum í undanrásum 200 metra bringusunds á HM í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi í morgun.
Hrafnhildur bætti sitt eigið Íslandsmet í sundinu þegar hún synti á 2.23.54 mínútum.
Gamla Íslandsmet Hrafnhildar var síðan á Smáþjóðaleikunum í júní þegar hún synti 200 metrana á 2.25.39 mínútum.
Hrafnhildur hefur þegar tryggt sér A-Ólympíulágmark í greininni og mun synda þetta sund á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu eftir eitt ár.
Hrafnhildur hefur verið í miklum ham á HM í sundi en fyrr í vikunni varð hún fyrsta íslenska konan sem kemst í úrslit á HM í 50 metra laug þar sem hún tryggði sér sjötta sætið í 100 metra bringusundi.
Bryndís Rún Hansen keppti einnig í morgun í fyrsta sinn á Heimsmeistaramóti í sundi. Bryndís synti 100 metra skriðsund á 56.87 sekúndum og endaði í 45. sæti af 90 keppendum.
Besti tími Bryndísar er 55.98 sekúndur en Ragnheiður Ragnarsdóttir á Íslandsmetið í greininni sem er 56,34 sekúndur. A-lágmarkið inn á Ólympíuleikana í Ríó er 54,43 sekúndur.
