Skoðun

Samstaða um mannúð og réttaröryggi

Þórir Guðmundsson skrifar

Frumvarpsdrögin sem þingmannanefnd undir forystu Óttarrs Proppé birti á mánudag eru stórviðburður á heimsvísu. Á meðan Evrópa logar í deilum um flóttafólk og farendur þá hafa íslensku stjórnmálaflokkarnir komið sér saman um reglur þar sem mannúð og réttaröryggi eru í fyrirrúmi.

Jafnvel á Norðurlöndum hafa flokkar sem berja í trumbur útlendingaandúðar náð ótrúlegu fylgi. Það hefur aldrei tekist á Íslandi. Samstaðan, sem hefur náðst um útlendingafrumvarpið sem nú er kynnt á vef innanríkisráðuneytis, er dýrmæt. Hún er líka brothætt.

Samheldni í samfélaginu er lykilgæði í huga flestra Íslendinga. Það útskýrir áhyggjur margra af hingaðkomu fólks til aðseturs í landinu. Þess vegna er mikilvægt að ræða í þaula stefnuna í þeim málum og að staðreyndir – ekki tilbúningur – upplýsi þá umræðu.

Flóttamenn eru lítill hluti þeirra sem hingað leita. Enn færri fá leyfi til að vera. Flóttamenn sem stjórnvöld bjóða til landsins hafa verið 10 til 15 á ári síðustu ár. Til samanburðar má líta til þess að hér á landi eru rúmlega 20 þúsund einstaklingar með erlent ríkisfang – flestir Pólverjar en einnig fólk annars staðar að.

Allt þetta fólk – bæði þeir sem koma í leit að vernd og hinir, miklu fleiri, sem koma vegna fjölskyldutengsla eða vegna vinnu – þarf að upplifa sig velkomið í nýju landi. Stjórnvöld, félagasamtök og einstaklingar geta hjálpast að við það.

Á vegum Rauða krossins í Reykjavík aðstoða sjálfboðaliðar til dæmis við heimanám barna og leiðbeina fólki sem veit ekki hvert það á að snúa sér í leit að vinnu, íbúð eða gagnvart hinum ýmsu opinberu kerfum.

Íslendingar eru í kjöraðstöðu til að stýra þessum málum í góðan farveg. Við getum deilt okkar samfélagsgildum með öðrum, sem hér vilja búa, og notið þess í leið sem þeir hafa upp á að bjóða.

Tillögur þingnefndarinnar, sem allir flokkar á þingi komu að, eru kærkomið skref í þessa átt. Í frumvarpinu kemur orðið mannúð fyrir 24 sinnum. Þegar við byrjum að ræða – og jafnvel deila – um tillögurnar, þá er mannúð ekki svo slæmur leiðarvísir.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×