Fótbolti

Kínversku Íslendingarnir, Sölvi Tryggva og Þorgrímur Þráins mættir til Hollands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen í hvítum búningi Bolton.
Eiður Smári Guðjohnsen í hvítum búningi Bolton. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen var einn fimm leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem komu með flugi Icelandair frá Íslandi sem lenti á Schipol-flugvelli um hálf eitt að staðartíma eða um hálf ellefu í morgun að íslenskum tíma.

Nokkrir leikmenn landsliðsins mættu til Amsterdam í gær og von er á fleirum í dag. Eiður Smári, Sölvi Geir Ottesen og Viðar Örn Kjartansson, sem allir leika í Kína, dvöldu á Íslandi í nokkra daga áður en þeir héldu utan í morgun. Þar mátti einnig finna markvörðinn Gunnleif Vigni Gunnleifsson og liðsfélaga hans hjá Breiðabliki Kristinn Jónsson. Þeir voru í eldlínunni með Blikum í markalausu jafntefli gegn Leikni í Pepsi-deildinni í gærkvöldi.

Þorgrímur Þráinsson.Vísir/Anton
Í fluginu voru einnig fjölmiðlafulltrúinn Ómar Smárason, sjúkraþjálfarinn Friðrik Ellert Jónsson og sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason sem vinnur að heimildarmynd um leið strákanna til Frakklands. Þá voru einnig landsliðsnefndarmennirnir Þogrímur Þráinsson, Rúnar V. Arnarson og Jóhannes Ólafsson.



Sjá einnig: Ólafur Ingi svarar kalli Lars og Heimis

Fyrsta æfing landsliðsins verður á keppnisvellinum, Amsterdam-Arena, klukkan 16:45 að staðartíma en reikna má með ansi rólegri æfingu enda fjölmargir leikmenn að spila um helgina. Höfðu þjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck orð á því á blaðamannafundi í vikunni að í raun yrðu það bara æfingarnar á þriðjudeginum og miðvikudeginum sem myndu standa undir nafni af fyrrnefndum sökum.

Íslenskir blaðamenn, sem eru á annan tug hér ytra, hitta svo sænska þjálfarann og valda leikmenn á hóteli landsliðsins klukkan 18:30 í kvöld.


Tengdar fréttir

Ólafur Ingi heldur til Amsterdam

Óskað hefur verið eftir kröftum miðjumannsins í ljósi meiðsla Emils Hallfreðssonar og Arons Einars Gunnarssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×