Ísland hefur skuldbundið sig til að taka á móti fimmtíu flóttamönnum en stjórnvöld hafa verið hvött til að hækka þá tölu umtalsvert. Eygló Harðardóttir velferðarráðherra sagði það grundvallast á því hversu mikið hinn almenni Íslendingur væri tilbúinn til þess að leggja á sig hversu mörgum flóttamönnum landið getur tekið á móti. Þetta sagði hún í Sprengisandi í morgun.
Sjá einnig: Íslendingar bregðast við kalli Eyglóar: „Flóttamenn eru mannauður, reynsla og hæfileikar“
Meðal þeirra sem hafa boðið fram aðstoð sína við að taka á móti flóttamönnum og hjálpað þeim að fóta sig í íslensku samfélagi eru margir nafntogaðir einstaklingar og aðstoðin sem fólk er tilbúið að veita er margvísleg.
Þannig hefur hafnfirski bæjarfulltrúinn Gunnar Axel Axelsson og fjölskylda hans boðist til að leggja sitt af mörkum enda eigi þau „meira en nóg af öllu,“ eins og Gunnar kemst að orði á viðburðinum.

Blaðamaðurinn Júlía Margrét Einarsdóttir lætur ekki sitt eftir liggja. Á viðburðinum telur hún upp fjölda muna sem hún vill koma í hendur þurfandi, svo sem borðstofuborð, stóla, plötuspilara og „marga ruslapoka af vel förnum kvenmannsfatnaði,“ eins og hún kemst að orði. Þá býður Júlía einnig fram félagslegan stuðning og heitir því að draga flóttafólkið með sér á menningarviðburði – sem og að greiða flugfar þeirra.
Það hyggst sjónvarpskonan Margrét Erla Maack einnig gera en hún segist reiðubúin að greiða flugfar tveggja flóttamanna.
Ljóst er að Bolvíkingum mun fjölga umtalsvert ef framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, Grímur Atlason og kona hans Helga Vala Helgadóttir fá einhverju ráðið. Á viðburðinum segjast þau boðin og búin að lána hús sitt í bæjarfélaginu í eitt ár til handa flóttamönnum og segir Grímur það hýsa 11 manns, með „uppbúin rúm og allt til alls,“ eins og hann kemst að orði.
Viðburðinn má sjá hér.