Fótbolti

Þjóðverjar unnu Skota í hörkuleik | Dönum tókst ekki að skora gegn Armeníu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þjóðverjar fagna sigrinum á Skotum.
Þjóðverjar fagna sigrinum á Skotum. vísir/getty
Átta leikir fóru fram í undankeppni EM 2016 í kvöld.

Í D-riðli vann Þýskaland 2-3 sigur á Skotum. Thomas Müller gerði tvö marka heimsmeistaranna og Ilkay Gundogan eitt. James McArthur skoraði annað mark Skota en hitt var sjálfsmark Mats Hummels.

Þjóðverjar eru með 19 stig á toppi riðilsins. Pólverjar, sem unnu 8-1 sigur á Gíbraltar í kvöld, koma næstir með 17 stig.

Írar, sem unnu Georgíu 1-0 með marki Jonathan Walters, eru í 3. sæti með 15 stig, fjórum stigum á undan Skotum.

Dönum mistókst að skora annan leikinn í röð þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Armeníu í Jerevan. Danir eru í 2. sæti riðilsins með 12 stig, þremur stigum á eftir Portúgal sem vann 0-1 sigur á Albaníu. Miguel Veloso skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma.

Norður-Írland heldur toppsætinu í F-riðli þrátt fyrir 1-1 jafntefli við Ungverjaland á heimavelli.

Richard Guzmics kom gestunum yfir á 74. mínútu og níu mínútum síðar vænkaðist hagur þeirra enn frekar þegar Chris Baird fékk að líta rauða spjaldið. En Kyle Lafferty tryggði Norður-Írum stig þegar hann skoraði á 93. mínútu.

Í sama riðli unnu Finnar 1-0 sigur á Færeyjum og Rúmenía og Grikkland gerðu markalaust jafntefli. Rúmenar hafa aðeins fengið á sig eitt mark í undankeppninni, fæst allra liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×