„Það er mikill kraftur í Norðmönnum og meira en hundrað þúsund hafa boðið sig fram til hjálparstarfa. Hér verður maður alls ekki var við umræðu á meðal almennings um það hvort það eigi að taka á móti flóttamönnum eins og heima á Íslandi. Þeir sem hafa þá skoðun halda sig ef til vill til hlés, hér er bara rætt um hvernig skuli aðstoða flóttamenn sem hingað koma,“ segir Ásta en stjórnvöld í Noregi áætla að hennar sögn að taka á móti átta þúsund flóttamönnum.
Eins og hér á landi þrýstir almenningur á um að enn fleiri flóttamönnum verði hleypt til landsins. „Það hefur orðið einhver sprenging og það er erfitt að útskýra af hverju. Fólk hugsar öðruvísi, segir Ásta og gefur dæmi um hlýhug Norðmanna síðustu daga. „Einn stærsti hóteleigandi í Noregi opnaði eitt af hótelum sínum fyrir fimmtíu flóttamönnum. Þau hefðu annars sofið á gólfi á móttökustöð fyrir flóttamenn en hóteleigandinn bauð þeim í staðinn að sofa í uppbúnum rúmum. Þetta er það sem ég verð vitni að núna og þykir fallegt.“

Hún er einstæð móðir tvíbura, fjögurra ára gamalla. Móðir hennar mun gæta þeirra á meðan hún leggur í langferðina og hún greiðir ferðina úr eigin vasa. „Ég fer á eigin vegum, flýg til eyjunnar og leigi mér hótelherbergi, ferðaáætlunin er ekki orðin ljós,“ segir hún en þegar nær dregur mun hún stofna síðu á Facebook í kringum ferðalag sitt.