Fótbolti

Hannes: Getum verið stoltir að klára þetta með tvo leiki til góða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór Halldórsson hefur fengið á sig þrjú mörk.
Hannes Þór Halldórsson hefur fengið á sig þrjú mörk. vísir/valli
"Þetta er eins og að vinna titil í tíunda veldi. Þetta er geggjað - alveg ólýsanlegt," sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska karlalandsliðið, við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Ísland komst á EM 2016 í kvöld eftir markalaust jafntefli gegn Kasakstan, en strákarnir okkar héldu út síðustu mínúturnar manni færri eftir að vera miklu betri í leiknum.

"Það var fínt að sjá fjórða dómarann flagga skiltinu með einni mínútu því við vorum búnir að missa mann út af og þeir voru allt í einu farnir að pressa svolítið á okkur," sagði Hannes.

"Þá var markmiðið bara að halda og klára þetta. Það var mikill léttir og auðvitað geggjað þegar dómarinn flautaði af."

Íslenska liðið hefur spilað undankeppninna með miklum stæl. Liðið hefur aðeins fengið á sig þrjú mörk og tapað einum leik. Kveikjan að þessu öllu voru vonbrigðin í Króatíu 2013.

"Vonbrigðin eftir Króatíu voru ólýsanleg þó sú undankeppni hafi verið frábær upplifun í heildina. Það var bara svo hrikalegt að tapa þeim leik," sagði Hannes.

"Það var svo sjokk að sjá riðilinn fyrir þessa undankeppni. Við settum okkur samt bara markmið um að komast áfram. Við erum að spila frábærlega og erum besta liðið í þessum riðli eins og staðan er í dag," sagði Hannes, en liðið á enn tvo leiki eftir.

"Við getum bara verið stoltir af því að klára þetta tveimur leikjum fyrir lokin. Það er hrikalega vel gert þó ég segi sjálfur frá," sagði Hannes Þór Halldórsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×