Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu leikur stærsta leik sinn í sögunni í kvöld þegar liðið tekur á móti Kasakstan á Laugardalsvelli. Eitt stig dugir liðinu til þess að gulltryggja sæti á lokakeppni EM á næsta ári.
Íslenska þjóðin geutur verið gríðarlega stolt af Strákunum okkar sem eru hársbreidd frá því að komast á stórmót í fyrsta sinn. Liðið hefur aðeins tapað einum leik í undankeppninni og aðeins fengið á sig þrjú mörk í sjö leikjum.
Þetta er ekki aðeins fagnaðarerindi fyrir liðið og stuðningsmenn þess heldur einnig KSÍ og gjaldkera sambandsins, Gylfa Þór Orrason. Lið sem komast á lokakeppni EM fá verðlaunafé frá evrópska knattspyrnusambandinu fyrir að komast á mótið.
Hefur ekki enn verið gefið út hvert verðlaunaféið verður á næsta móti en það verðru aukning frá síðasta móti þegar öll lið sem tóku þátt fengu 8 milljónir evra, rúmlega 1,1 milljarð íslenskra króna.
Þá fengu liðin hálfa milljón evra, 72 milljónir íslenskra króna fyrir jafntefli á lokakeppninni og eina milljón fyrir sigur.
Liðin sem komust upp úr riðlinum fengu 2 milljónir evra, en verðlaunin stigmagnast eftir því hversu langt liðið kemst og fékk sigurliðið árið 2012, Spánn, alls 24 milljónir evra.
