Innlent

Mun rigna á strákana okkar í Laugardalnum í kvöld

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Landsliðið fagnar marki Gylfa Þórs Sigurðssonar gegn Hollandi á Amsterdam Arena síðastliðinn fimmtudag.
Landsliðið fagnar marki Gylfa Þórs Sigurðssonar gegn Hollandi á Amsterdam Arena síðastliðinn fimmtudag. vísir/valli
Það mun rigna í Laugardalnum í kvöld ef marka má veðurspána en það hefur vart farið framhjá mörgum að Ísland mætir Kasaktstan á Laugardalsvelli í kvöld í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu 2016.

Flautað verður til leiks klukkan 18.45 en samkvæmt spánni verður þá alskýjað í Reykjavík, 12 stiga hiti og vindur um 8 metrar á sekúndu.

„Það verður suðlæg átt sem ég veit ekki nákvæmlega hvaða áhrif hefur á völlinn en það verða svona um 6-9 metrar á sekúndu. Það er nú enginn stormur en það er alveg hægt að vera í íþróttum í betra veðri,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við Vísi. Þá mun að öllum líkindum rigna eitthvað í Laugardalnum meðan á leiknum stendur.

Löngu uppselt er á leikinn og komast í raun færri að en vilja enda gæti kvöldið orðið sögulegt í íslenskri íþróttasögu; jafntefli eða sigur tryggir farmiða fyrir strákana okkar til Frakklands. Veðrið mun þá væntanlega ekki skipta neinu máli en þeim sem vilja vita meira um spána er bent á veðurvef Vísis.


Tengdar fréttir

Tryggir Ísland sig á EM í dag?

Ísland mætir Kazakstan í einum mikilvægasta leik sem karlalandslið í knattspyrnu hefur spilað, en nái íslenska liðið eitt stig úr leiknum í kvöld hefur það tryggt sig inn á Evrópumeistaramótið sem fram fer í Frakklandi sumarið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×