Evrópska gyðingaþingið íhugar að sækja rétt sinn fyrir Alþjóðaviðskiptastofnuninni á grundvelli sáttmála stofnunarinnar sem Ísland og Ísrael eru aðilar að, vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að sniðganga vörur frá Ísrael. Forseti Evrópska gyðingaþingsins segir á vef þess að aðgerðirnar mismuni gyðingum og að þingið hafi nú þegar leitað ráðgjafar um hvort þær standist alþjóðalög og sáttmála.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en þar segir Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, að ákvörðunin sé fyrst og fremst táknræn og innlegg í baráttuna fyrir mannréttindi í heiminum.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir í samtali við Fréttablaðið í dag að ákvörðun borgarinnar hafi lítið vægi, en veltir því fyrir sér hvort hún samræmist lögum um opinber innkaup.

