Innlent

„Kæra Eygló“ hvatti breska menn til þess að hanna AirBnb fyrir flóttamenn

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bryndís kemur ekki nálægt smáforritinu en hugmynd mannanna kviknaði eftir að þeir lásu fréttir um "Kæra Eygló.“
Bryndís kemur ekki nálægt smáforritinu en hugmynd mannanna kviknaði eftir að þeir lásu fréttir um "Kæra Eygló.“
Vel heppnuð tilraun Bryndísar Björgvinsdóttur, Facebook-síðan Kæra Eygló, hefur hvatt aðra sem langar til þess að hjálpa flóttamönnum til þess að grípa til aðgerða. Í vikunni höfðu samband við hana tveir breskir menn sem ákváðu eftir að hafa lesið fréttir á erlendum miðlum um framtak hennar að hanna smáforrit eða app sem er eins konar AirBnb fyrir flóttamenn.

„Þeir vildu auðvelda fólki að skrá herbergi og heimili sem þau vilja bjóða flóttafólki með appi sem flóttafólk hefði þá aðgang að. Þeir stefna á að það verði aðgengilegt um allan heim. Það heitir My Refugee og er í rauninni alveg eins og AirBnb nema auðvitað að það eru engir peningar í spilinu,“ segir Bryndís Björgvinsdóttir.

„Ég kem ekkert nálægt þessu nema að ég hitti þá á Skype tvisvar og við vorum að skiptast á hugmyndum. Það er svo gaman hvað landamæri skipta engu máli þegar fólk er með sömu hugmyndirnar og langar til að gera eitthvað. Ég veit ekki einu sinni hvað þeir heita eða hvað þeir gera en við byrjuðum strax að tala um flóttamannavandann og hvað við gætum gert og svona.“

Hún segir smáforritið sniðugt upp á hvernig það leiðir saman þá sem þurfa hjálp og þá sem vilja bjóða hana.

Mennirnir tveir hafa hafið söfnun á Indiegogo til þess að greiða grafískum hönnuði og til þess að greiða fyrir leyfi. Söfnunina má nálgast hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×