Síðastliðin ár hefur völlurinn aðeins fyllst á leikjum karlalandsliðsins í fótbolta, sem fara fram á vellinum þrisvar til fimm sinnum á ári. En þá komast líka færri að en vilja.

„Ef það á að loka vellinum af og byggja stúku til endanna þá verða þær að vera svona fimm til tíu metrum fyrir aftan mörkin. Við viljum byggja venjulegan ferhyrndan völl,“ segir Geir.
Reykjavíkurborg er eigandi Laugardalsvallar. Geir segir að fjölbreyttari starfsemi en fótboltaleikir yrði að fara fram í húsinu. „Reykjavík hlýtur að þurfa að eiga einn svona viðburðastað þar sem fólk getur komið saman á stóra menningarviðburði og við getum notað í fótboltaleiki nokkrum sinnum á ári.“

KSÍ tilkynnti í gær að til samstarfs hefði verið stofnað við ráðgjafarfyrirtækið Borgarbrag um að leiða vinnu við kostnaðaráætlun og kanna möguleikann á byggingu vettvangsins. Guðmundur Kristján Jónsson, framkvæmdastjóri Borgarbrags, segir ekki tímabært að nefna kostnað við leikvanginn. „Það er ómögulegt að segja hvað mannvirkið mun kosta ef af því verður. Klárlega myndi þetta hlaupa á einhverjum milljörðum en hvort þeir verða fimm, tíu eða fimmtán, það er ómögulegt að segja,“ segir Guðmundur.
Hann segir að þeirra fyrsta skref sé að ræða við hagsmunaaðila, svo sem Reykjavíkurborg og íþróttahreyfinguna. Í kjölfarið væri svo ráðist í þarfagreiningu. „Ég myndi ekki segja að það stæði til að raska umhverfinu meira en hefur verið gert, eða að fara inn á nýja byggingareiti. Yfirbyggingin sem slík, hvort það verður þak á vellinum eða ekki, er seinni tíma mál.“