Golf

McIlroy: Upphæðin þýðir ekki mikið fyrir mig

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rory McIlroy.
Rory McIlroy. Vísir/Getty
Norður-írski kylfingurinn Rory McIlroy sat fyrir svörum blaðamanna fyrir lokamót FedEx-mótaraðarinnar sem hefst í dag þar sem hann ræddi keppnistímabilið í ár og ræddi hann meðal annars það þegar hann sleit liðbönd í fótbolta með vinum sínum stuttu fyrir Opna breska meistaramótið.

McIlroy sem hafði titil að verja á Opna breska og PGA-meistaramótinu meiddist við að spila fótbolta með vinum sínum í upphafi júlí. Missti hann fyrir vikið af báðum mótunum ásamt því að missa af mótum á FedEx-mótaröðinni og hann tók undir að það hefðu verið mikil vonbrigði.

Aðspurður hvort verðlaunaféið á sunnudaginn gæti haft áhrif á hann sagðist hann ekki vera að taka þátt vegna þess en sigurvegari FedEx-mótaraðarinnar fær 10 milljónir dollara, tæplega 1,3 milljarð íslenskra króna.

„Sem betur fer þýðir þessi upphæð ekki mikið fyrir mig, það yrði auðvitað frábært að vinna allann þennan pening en ég vill vinna titilinn. Við kylfingarnir á mótaröðinni erum heppnir að fá að spila upp á milljónir dollara í hverri viku, þetta eru þvílík forréttindi og gerir okkur kleift að undirbúa framtíð barna okkar,“ sagði Rory sem sagðist hafa lært mikilvæga lexíu á þessu ári.

„Ég lærði að spila ekki fótbolta á miðju tímabili,“ sagði Rory léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×