Darmstadt 98 vann Werder Bremen 2-1 þar sem sigurmarkið kom sex mínútum fyrir leikslok. Sandro Wagner var hetja heimamanna því hann skoraði bæði mörkin.
Darmstadt 98 fór upp í tíunda sæti deildarinnar þökk sé þessum sigri en Werder Bremen hefur aftur á móti aðeins náð í samtals sjö stig í fyrstu sex leikjum sínum.
Aron Jóhannsson spilaði fyrstu 82 mínúturnar í leiknum en hann var tekinn af velli í stöðunni 1-1 á 82. mínútu leiksins.
Sandro Wagner skoraði sigurmarkið aðeins tveimur mínútum eftir að Aron var tekinn af velli.
Aron Jóhannsson kom Werder Bremen í 1-0 strax á 19. mínútu leiksins en hann skoraði með skalla eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Theodor Gebre Selassie. Sandro Wagner jafnaði metin tólf mínútum síðar og þannig var síðan staðan í 53 mínútu.
Aron Jóhannsson er á sínu fyrsta tímabili með Werder Bremen og var þarna að skora sitt annað deildarmark á tímabilinu. Fyrsta markið skoraði hann úr víti í sigri á Gladbach í lok ágúst.
Aron Jóhannsson kom inná sem varamaður í fyrstu umferð en hefur verið í byrjunarliðinu síðan. Hann hefur hinsvegar verið tekinn af velli í öllum fimm leikjum sínum í byrjunarliði Bremen.
