Tyrkland vann 2-0 sigur á Tékklandi í Prag í kvöld en sigur Tyrkja þýðir að Ísland heldur toppsæti riðilsins þegar aðeins ein umferð er eftir þrátt fyrir að hafa aðeins náð jafntefli gegn Lettlandi í dag.
Eftir að hafa horft upp á Holland vinna leik sinn gegn Kasakstan fyrr í dag vissu Tyrkir að þeir þyrftu á sigri að halda til þess að EM sætið væri enn í þeirra höndum.
Selcuk Inan kom Tyrkjum yfir á 62. mínútu af vítapunktinum en Hakan Calhanoglu, einn efnilegasti leikmaður Evrópu, gerði út um leikinn tíu mínútum fyrir leikslok með öðru marki Tyrkja.
Sigur Tyrkja þýðir að Ísland er enn í efsta sæti þegar ein umferð er eftir en Ísland mætir Tyrklandi ytra í lokaumferðinni á þriðjudaginn en á sama tíma ferðast Tékkar til Hollands og mæta Hollendingum sem þurfa á sigri að halda.
