Fótbolti

Blatter og Platini báðir búnir að áfrýja 90 daga banninu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter og Michel Platini.
Sepp Blatter og Michel Platini. Vísir/Getty
Forseti FIFA Sepp Blatter og varaforsetinn Michel Platini voru báðir skikkaðir í 90 daga leyfi frá störfum sínum fyrir FIFA í gær en Siðanefnd sambandsins tók þessa ákvörðun í framhaldi af því að þeir sæta nú báðir rannsókn vegna spillingarmála.

Blatter og Platini höfðu tvo daga til að koma með formlega athugasemd við bannið og þeir ákváðu báðir að áfrýja því til áfrýjunarnefndar Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Hinn 79 ára gamli Sepp Blatter heldur fram sakleysi sínu, segist hafa gögn sem sanni sakleysi sitt og kallaði glæparannsóknina á sér svívirðilega. Platini er einnig mjög ósáttur við þróun mála og telur að einhver sé að reyna að koma sök á sig.

Þrátt fyrir að Blatter og Platini hafi áfrýjað banninu mega þeir áfram ekkert koma nálægt knattspyrnumálum fyrr en áfrýjun þeirra verður tekin fyrir.

Issa Hayatou, forseti afríska knattspyrnusambandsins, verður starfandi formaður FIFA á meðan Sepp Blatter er í banni og Spánverjinn Angel Villar Llona mun að öllum líkindum leysa Michel Platini af sem forseti UEFA.

UEFA hefur hingað til stutt við bakið á Michel Platini en fulltrúar aðildarlandanna 54 munu hittast næsta fimmtudag í Nyon þar sem þetta krísuástand verður rætt. Vikuna á eftir mun síðan Framkvæmdarnefnd FIFA væntanlega halda sérstakan neyðarfund um málið.

„Hann hefur þegar áfrýjað til áfrýjunarnefndar FIFA. Hann ætlar að verja sig og er öruggur um það að hann verði fundinn saklaus," sagði Klaus Stohlker, ráðgjafi og vinur Sepp Blatter við Sky Sports.


Tengdar fréttir

FIFA setur Blatter, Platini og Valcke alla í 90 daga bann

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur leyst þá Sepp Blatter, forseta FIFA, Jerome Valcke, aðalritara FIFA og Michel Platini, varaformann FIFA, alla frá störfum í 90 daga en þeir hafa allir verið bendlaðir við spillingarmál innan knattspyrnuforystunnar.

Bach fékk nóg af FIFA

Forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar segir að það sé löngu tímabært að FIFA taki til hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×