Strákarnir okkar eru nú þegar komnir á stórmót í fyrsta sinn. Farseðillinn er tryggður til Frakklands næsta sumar.
Sjá einnig:Birkir: Ekki saknað Ítalíu mikið undanfarið
„Þetta er bara drullugaman. Það eru allir að tala um að við séum komnir áfram. Það er líka bara klárt þannig við þurfum ekkert að pæla í því,“ sagði Ragnar hress og kátur við Vísi fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvellinum í dag.
Tala mikið um styrkleikalistann
Ísland tryggði sér sætið með markalausu jafntefli gegn Kasakstan í vondum fótboltaleik. Þar voru það úrslitin sem skiptu öllu máli.
„Við vorum vorum lélegir hérna heima síðast að við viljum svara fyrir það. Við eigum tvo hörku leiki fyrir höndum sem við munum koma af fullum krafti í,“ sagði Ragnar, en sigur í þeim báðum skiptir sköpum fyrir styrkleikaröðun inn á EM.
„Þjálfararnir tala þvílíkt mikið um þennan styrkleikalista sem er hárrétt hjá þeim. Fyrir svona litla þjóð eins og okkur skiptir máli að vera í öðrum eða þriðja styrkleikaflokki eða hvað þetta nú er. Það er gott að þeir minni okkur á þetta.“
„Við viljum líka bara vinna alla leiki sem við spilum þannig það er ekkert sem á að fokka þessu upp hjá okkur.“

Ísland vann bæði Lettland og Tyrkland í fyrri umferð undankeppninnar. Báðir leikirnir unnust, 3-0. Stefnt er á sigur gegn báðum þjóðum á ný.
„Við erum búnir að vinna bæði þessi lið og sýna að við getum það. Þá fer maður inn í leikinn og býst við því að vinna. Við eigum að vinna Letta en leikurinn gegn Tyrkjum verður erfiður á útivelli,“ sagði Ragnar.
Sjá einnig: Eiður: Ræði ekki nýjan samning fyrr en eftir tímabilið í Kína
Miðvörðurinn öflugi segist fá mikið af hamingjuóskum heima í Rússlandi þar sem hann spilar með Krasnodar. Hann hefur þó lítið reynt að fylgjast með hvort rússneskir fjölmiðar séu að skrifa um íslenska ævintýrið.
„Ég er ekkert að lesa blöðin þarna úti. Ég er aðeins kominn inn í rússneskuna en það tæki mig hálftíma að lesa eina grein,“ sagði Ragnar.
Allt annað að spila með Íslandi
„Það eru samt allir að fylgjast með þessu og óska manni til hamingju. Þetta er náttúrlega frábært og svo nýtt. Ef það heldur áfram að ganga svona vel í framtíðinni verður fólki skítsama en akkurat núna er þetta spennandi og maður fær mikið af hamingjuóskum.“
Eftir gott tímabil í fyrra þar sem Krasnodar missti af sæti í Meistaradeildinni á lokadegi er liðið nú í sjöunda sæti eftir ellefu umferðir og hefur ekki nunið í síðustu þremur leikjum.
„Það er allt öðruvísi hugarfar í gangi í svona mikilvægum leikjum hjá Krasnodar en hjá landsliðinu. Liðinu mínu gengur illa en ég persónulega er ekkert að gera nein mistök. Það er bara svolítill munur á að vera að spila fyrir Krasnodar eða íslenska landsliðið núna,“ sagði Ragnar Sigurðsson.