Körfubolti

Ætlar að spila áfram með grímuna í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Conley með grímuna.
Mike Conley með grímuna. Vísir/EPA
Mike Conley, leikstjórnandi NBA-liðsins Memphis Grizzlies, þarf ekki lengur að spila með hlífðargrímu yfir andlitinu en hann ætlar samt að gera það á komandi tímabili.

Conley kinnbeinsbrotnaði í leik með Grizzlies í úrslitakeppninni síðasta vor en brotið hefur nú alveg gróið og hann er sem nýr. Conley hélt áfram að spila eftir að hann fékk grænt ljós frá læknum en notaði þá grímu til varnar,

„Ég ætla að halda áfram að nota hana. Það er þægilegra að vita af henni nú þegar ég er alltaf að fá högg í andlitið. Ég er lítill pjakkur og er að hlaupa í kringum olnboga allan leikinn," sagði Mike Conley í viðtali við Associated Press.

Tvær stálplötur voru græddar í andlit Conley síðasta vor til að laga brotin bein í kringum vinstra auga hans eftir að hann fékk vænt olnbogaskot frá Portland-manninum C.J. McCollum.

Conley missti aðeins úr þrjá leiki og skoraði síðan 22 stig í fyrsta leiknum sínum eftir meiðslin þar sem að Memphis Grizzlies vann 97-90 sigur á Portland.

Mike Conley er einn af vanmetnustu leikstjórnendum NBA-deildarinnar en hann hefur fyrir löngu sannað hversu harður hann er af sér með því að spila ítrekað í gegnum meiðsli.

Memphis Grizzlies hefur notað magnaða frammistöðu hans í úrslitakeppninni síðasta vor til að sýna körfuboltaheiminum úr hverju leikstjórnandi liðsins er gerður.

Mike Conley er 27 ára gamall og er að fara byrja sitt níunda tímabil með Memphis Grizzlies í NBA-deildinni. Hann var með 15,8 stig og 5,4 stoðsendingar að meðaltali á síðasta tímabili.

Spænski miðherjinn Marc Gasol segir Conley margoft hafa fórnað tölunum sínum til að hjálpa Grizzlies-liðinu að viunna.  „Það sem hann gerði í úrslitakeppninni, ekki að spila með grímuna heldur með brotin undir grímunni, gerði hann að allt öðrum manni," sagði Gasol.  

Gasol og fleiri liðsfélagar búast við því að Mike Conley eigi frábært tímabil í vetur og eru að spá því að vinni sér sæti í Stjörnuliði Vesturdeildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×