Fólkið sem hefur stutt Chicago Cubs í gegnum súrt og sætt, aðallega súrt, síðustu árin mun líklega ekki getað séð liðið í næstu leikjum.
Það eru liðin 107 ár síðan Cubs varð síðast hafnaboltameistari í Bandaríkjunum og gengi liðsins í ár hefur sett allt á annan endann.
Það hefur ekki minnkað stemninguna og umfjöllunina að spádómur myndarinnar Back to the Future II gæti verið að rætast.
Cubs er komið í aðra umferð í úrslitakeppninni þar sem liðið mun spila við NY Mets. Velgengni fylgir áhugi og miðaverðið á heimaleiki Cubs gegn Mets eru ekki ókeypis.
Meðalverðið á heimaleiki Cubs gegn Mets er komið í 170 þúsund krónur. Ódýrustu sætin eru á 63 þúsund krónur en dýrustu miðarnir eru að fara á 600 þúsund.
Hinn venjulegi stuðningsmaður Cubs, sem hefur ekki of mikið á milli handanna og hefur kannski verið fastagestur á Wrigley Field í áraraðir, verður væntanlega að gera sér að góðu að horfa heima eða á bar.
