„Mér fannst þetta „clean“. Hann hoppar til baka og ég vinn boltann. Hann fer að grenja og fær aukaspyrnu á ekki neitt.“
Það var mikill hiti í mönnum á vellinum enda þurftu Tyrkir bara eitt mark til að komast beint á EM og þeir voru nýbúnir að missa mann af velli með rautt spjald.
„Þetta voru óttalega veikar aukaspyrnur sem þeir fengu allan leikinn. Maður hefði kannski frekar átt að leyfa honum að fara og taka engan séns. En það er ekki minn leikstíll.“
„Hann var alltaf að fara að gefa þeim séns og þeir nýttu hann. Þetta var að vísu mjög góð aukaspyrna. Það verður ekki tekið af honum.“
Ísland varðist vel í leiknum og því svekkjandi að hafa fengið á sig mark sem þetta. „Þeir áttu engin færi. Við höfðum fulla stjórn á þessu. Við vorum kannski svolítið tæpir í uppspilinu í fyrri hálfleik og þá komu þeir með einhver skyndihlaup. En við vorum með góða stjórn á þeim allan tímann.“
„Við sjáum að við erum með betra lið en þeir. Ef það hefði verið eitthvað undir fyrir okkur þá hefðum við verið í öðrum gír en við vorum í. Við hefðum getað unnið þá, rétt eins og við gerðum heima.“