„Maður er að reyna að brosa í gegnum tárin,“ sagði Heimir, brosandi. „Það er alltaf hundleiðinlegt að fá á sig mark á lokamínútunum og sérstaklega í svona leik því við vorum í dauðafæri að vinna hann.“
Tyrkir skoruðu sigurmarkið sitt úr umdeildri aukaspyrnu á lokamínútum leiksins, skömmu eftir að hafa misst mann af velli með rautt spjald.
„Við plönuðum það í hálfleik að vera þolinmóðir og mér fannst skapað svo mikið svæði fyrir okkur eftir því sem leið á leikinn. Það var góður möguleiki á að skora á þá í lokin því þrátt fyrir að þeir væru manni færri þá myndu þeir fresta þess að skora.“
„Það voru miklir möguleikir á bak við þá en við vorum kannski ekki alveg nógu klókir og ekki alveg nógu ferskir til að nýta okkur það. En ef við lítum á það jákvæða þá erum við afar stoltir af strákunum. Þeir spiluðu mjög vel við afar erfiðar aðstæður eins og allir fundu fyrir sem voru á þessum leik.“
„Ég er stoltur af strákunum en svekktur yfir tapinu,“ sagði Heimir.
Hann segir að það hafi breytt miklu að Kasakstan komst yfir í Lettlandi. „Um leið vissu þeir að þeir gætu með marki komist beint á EM. Við vissum að þeir myndu taka áhættu og þetta féll þeirra megin í þetta sinn. Ég vildi að ég gæti sagt til hamingju en ég hugsa fyrst um okkur og við erum sársvekktir.“
Það var enginn hreinræktaður framherji í byrjunarliði Tyrklands í dag en það kom Heimi ekki á óvart.
„Þeir hafa verið að spila svona áður í keppninni. Þeir eru með svo marga vel spilandi og tekníska leikmenn þarna frammi að þeir eru í raun með fimm tíur á miðjunni og svo einn varnarsinnaðan miðjumann. Það kom okkur ekki á óvart.“
„Við vissum að þetta yrði erfitt í byrjun og það kom kafli þar sem þeir voru hættulegir í 20-30 mínútur. En við stóðum það af okkur og eftir það gáfu þeir í raun eftir.“
„Við áttum fína sénsa á að skora á þá. En það féll því miður ekki með okkur.“
Heimir segir erfitt á þessari stundu hvað Ísland geti lært af síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppninni.
„Eftir leikinn gegn Lettlandi var talað um að menn væru kannski ekki nógu gíraðir í þann leik en mér fannst við sýna það nú að menn gáfu allt sem þeir áttu í þennan leik. Við getum skilið betur við þennan leik en leikinn gegn Lettlandi þrátt fyrir tapið.“
Eftir að Tyrkir skoruðu var fagnað gríðarlega á vellinum, ekki síst á varamannabekk þeirra. Heimir gekk að einum úr starfsliði Tyrkjanna og virtist eiga eitthvað ósagt við hann.
„Það eru vitleysingar í öllum hópum og maður lætur ekki segja hvað sem er við sig,“ sagði þjálfarinn að lokum.