„Þau sögðu okkur að þetta væri bara okkur að kenna og við ættum bara að kaupa nýja miða heim á þriðjudagsmorgunn fyrir 59.000 kall,“ skrifar ósáttur farþegi á Facebook-síðu WOW air.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að alls hafi sex farþegar orðið fyrir þessu óláni. Þeir hafi allir verið upplýstir um að mæta þyrfti í innritun samkvæmt bókun. „Það varð seinkun á annarri vél sem var að koma inn og hafði keðjuverkandi áhrif á okkar flug. Við sendum SMS á alla farþega og þeim sagt frá seinkuninni og þeim tilkynnt að check-in myndi loka miðað við upprunalegan brottfarartíma, eins og kemur einnig fram á heimasíðunni okkar,“ útskýrir hún.
„Við erum að vinna með svokölluðum handling fyrirtækjum og þurfum að semja við þau sérstaklega um að vera með innritunina opna lengur. En það var ekki að þessu sinni og farþegarnir voru látnir vita af því.“
Aðspurð hvort endurskoða þyrfti orðalag í smáskilaboðunum, segir hún það vel geta verið. Þó sé afar sjaldgæft að atvik sem þessi komi upp. „Ég fékk að sjá sms-ið og það var frekar skýrt. En oft vill það vera þannig að fólk les í hraði og sér bara tveggja tíma seinkun og heldur þá að það sé öruggt að koma tveimur tímum fyrr á flugvöllinn,“ segir Svanhvít.
Hún segir félaginu þykja þetta miður. Því verði komið til móts við farþegana. „Við þurfum í raun ekki að gera neitt fyrir þessa farþega, en við erum búin að endurgreiða þeim og þeir fá að fljúga með félaginu hingað til lands án þess að greiða fyrir það.“
Anna og Auður héldu úti ferðasögu á Facebook-síðu WOW air í kjölfar atviksins, en hana má sjá hér fyrir neðan.