Körfubolti

Einstök Michael Jordan búð opnar í Chicago á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan.
Michael Jordan. Vísir/AFP
Körfuboltaáhugamenn á leiðinni til Chicago-borgar geta hér eftir bætt við heimsókn í eina búið á listann hjá sér.

Nike opnar á morgun sérstaka Michael Jordan búð í Chicago þar sem eingöngu verða til sölu vörur tengdar besta körfuboltamanni allra tíma.

Þessi Michael Jordan búð verður sú fyrsta sinnar tegundar en ekki þó sú síðasta því Nike er með það á dagskránni að opna einnig samskonar búðir í New York, Los Angeles og Toronto.

Til sölu í búðinni verða körfuboltavörur, æfingavörur, íþróttavörur og vörur fyrir börn en allt merkt Michael Jordan.

Það verður líka sérstakt horn í versluninni þar sem Michael Jordan mun sjálfur velja vörur sem eru honum sérstaklega kærar.

Nike datt heldur betur í lukkupottinn þegar íþróttavörufyrirtækið samdi við Michael Jordan á sínum tíma en Jordan hefur nú grætt mikið á því sjálfur.

Michael Jordan varð stærsta íþróttastjarna heims og eftir sex titla og endalaus einstaklingsverður efast fáir körfuboltaspekingar um það að þar hafi farið besti körfuboltamaður sögunnar.

Michael Jordan vann alla sex titla sína með Chicago Bulls, félag sem stóð mjög illa þegar það valdi hann í nýliðavalinu 1984.

Fyrir komu Jordan höfðu fáir áhuga á Bulls-liðinu en eftir að Jordan fór að vinna titla með félaginu varð það orðið eitt allra vinsælasta félag heimsins.

Það má telja líklegt að þessi Michael Jordan búð gangi vel og Jordan sjálfur mun örugglega fá vænan hlut í sinn vasa. Þrátt fyrir að skórnir hans séu löngu komnir upp á hillu þá heldur Jordan áfram að þéna meira pening en þegar hann var leikmaður.

Það vilja allir tengjast Michael Jordan og það hefur ekkert breyst sautján árum eftir hans síðasta meistaratitil.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×