Ísland byrjaði á 2-0 sigri gegn Hvíta-Rússlandi á heimavelli í fyrstu umferð, en á nú tvo leiki á útivelli gegn Makedóníu og Slóveníu.
Tveir lykilmenn liðsins; Guðbjörg Gunnarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir, eru nýkrýndir landsmeistarar. Guðbjörg með Lilleström í Noregi en Sara með Rosengård í Svíþjóð.
Í viðtali við SportTV töluðu þær um fögnuðinn eftir að vinna deildina, en töluvert meira fjör var hjá Söru og stöllum hennar í Rosengård í Svíþjóð.
„Þetta var aðeins meira spennandi hjá Söru því þær tryggðu titillinn í lokaumferðinni. Við erum búnar að vita svolítinn tíma að við myndum vinna og enn eru tveir leikir eru eftir. Þetta var pínu formsatriði hjá okkur,“ segir Guðbjörg sem ver mark Lilleström.
„Það var æðislegt að vinna titilinn í lokaumferðinni eftir langt og erfitt tímabil,“ segir Sara Björk sem viðurkennir að það sé skemmtilegra að mæta í landsliðsferðir eftir sigur í deildinni í stað þess að fá silfur.
„Ég hefði verið mjög súr. En ég næ að kúpla mig út úr þessu með landsliðinu. Þetta er annað verkefni, en ég er ánægð í dag,“ sagði hún.
Stelpunum líst vel á aðstæður í Makedóníu, en grasið á leikvanginum þar sem spilað er lítur vel út að sögn Guðbjargar. „Maður veit aldrei við hverju maður á að búast þegar maður kemur til þessara landa. En ég held þetta sé bara í góðu lagi,“ segir Guðbjörg sem fékk frí á æfingu í gær.
„Hún er orðin eins og Svíi. Það er einhver væll í henni,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir þá kímin að lokum.
Allt viðtalið má sjá hér að neðan.