Viðskipti innlent

Menntamálaráðherra vill endurhugsa starfsemi RÚV

ingvar haraldsson skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálráðherra vill hlutverk RÚV sem minnst á auglýsingamarkaði.
Illugi Gunnarsson menntamálráðherra vill hlutverk RÚV sem minnst á auglýsingamarkaði. vísir/vilhelm
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra kallar eftir því að hlutverk Ríkisútvarpsins verði endurskoðað í heild sinni eftir útgáfu skýrslu um rekstur stofnunarinnar.

Í skýrslunni kom fram að rekstur RÚV frá því að opinbert hlutafélag var stofnað um reksturinn árið 2007 hafi ekki verið sjálfbær. Gjöld hafi verið umfram tekjur og hallarekstur hafi verið fjármagnaður með auknu ríkisframlagi, lántökum og frestun afborgana lána.

Illugi vill að horft verði til hvernig hægt verði að sinna þeim hlutverkum sem RÚV hefur verið falið næstu árin og áratugi í ljósri örra tæknibreytinga og breyttri fjölmiðlaneyslu almennings. Sjónvarpsáhorf hefur dregist saman um 28 prósent frá árinu 2009 og áhorf á sjónvarpsfréttir um 17 prósent.

„Í ljósi breyttrar tækni, í ljósi gjörbreyttrar möguleika almennings á að nálgast efni, fræðsluefni, afþreyingarefni, menningarefni, eftir fjölmörgum öðrum leiðum, þá hljótum við að horfa til þess og spyrja okkur hvort við getum með einhverjum öðrum hætti og betri fullnægt þeim skyldum og náð þeim markmiðum sem við setjum okkur með almannaútvarpi.“ Á næstunni hyggst Illugi skipa vinnuhóp sem skoða á hlutverk RÚV.

Niðurstöður hópsins verði svo hægt að nota sem grunn að þingsályktunartillögu um framtíð RÚV sem leggja mætti fram á Alþingi á vormánuðum.

Þá er Illugi talsmaður þess að hlutverk RÚV á auglýsingamarkaði verði sem minnst. „Það er nógu lítill markaðurinn hér, þannig að það er erfitt fyrir einkareknu stöðvar að afla sér tekna á auglýsingamarkaði. Þá hefur á móti komið sú spurning miðað við þær kröfur sem eru gerðar til Ríkisútvarpsins, hvort að það hafi þá ekki kallað á aukin fjárframlög frá ríkissjóði eða skattgreiðendum til stofnunarinnar," segir hann.

Menntamálaráðherra hefur einnig efasemdir um opinbera hlutafélaga fyrirkomulagið. „Ég hef ætíð verið hugsi yfir því fyrirkomulagi. Þegar ríkið rekur starfsemi sem er sannarlega ríkisstarfsemi þá hef ég ekki haft neina sérstaka sannfæringu fyrir því að það ætti þá þar með að búa því einhvern annan búning að vera ríkisstofnun,“ segir Illugi.


Tengdar fréttir

Reksturinn ósjálfbær í óbreyttri mynd

Skýrsla um fjárhagsstöðu RÚV ohf sýnir bágan fjárhag stofnunarinnar. Ráðherra telur eðlilegt að menn ræði hlutverk stofnunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×