Enski boltinn

Chris Coleman svarar Wenger fullum hálsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Coleman fagnar með leikmönnum sínum þegar EM-sætið var í húsi hjá velska landsliðinu.
Chris Coleman fagnar með leikmönnum sínum þegar EM-sætið var í húsi hjá velska landsliðinu. Vísir/Getty
Chris Coleman, þjálfari velska landsliðsins, var mjög ósáttur með ásakanir Arsene Wenger en knattspyrnustjóri Arsenal kenndi starfsliði velska landsliðsins um meiðsli Aaron Ramsey.

Aaron Ramsey meiddist í Meistaradeildarleik á móti Bayern München og hefur ekki spilað síðan. Hann verður í fyrsta lagi með Arsenal eftir landsleikjahlé.

Ramsey meiddist aftan í læri í Bayern-leiknum 20. október síðastliðinn og Wenger sagði ástæðuna hafa verið of mikið álag.

Ramsey hafði spilað með Arsenal á móti Watford þremur dögum áður en Wenger ákvað samt að væla yfir því að velski miðjumaðurinn hafi spilað á móti Andorra í leik sem skipti litlu máli þar sem Wales var búið að tryggja sér sæti á EM.

Wenger viðurkenndi að hann hafi verið að hugsa um að hvíla Ramsey á móti Watford en sagði jafnframt að leikurinn sem hann átti að hvíla hafi verið sá á móti Andorra þar sem Ramsey skoraði annað af mörkum velska landsliðsins.

„Ef Wenger hefur eitthvað út mig eða mitt val að setja þá hvet ég hann til þess að hringja í mig og ég skal glaður keyra á æfingasvæði Arsenal,“ sagði Chris Coleman við Sky Sports.

„Starf okkar er nógu erfitt þótt að við notum ekki tækifærið til að skjóta á hvern annan. Þetta var fyrir neðan beltisstað," sagði Chris Coleman sem gaf það um leið út að hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar frá læknaliði Arsenal um stöðuna á Aaron Ramsey.

„Ég heyrði ekki neitt frá neinum hjá Arsenal og það er ekkert annað en grænt ljós í mínum huga," sagði Coleman.

„Skoðið bara það sem Wenger sagði á þessum fundi. Hann hringdi í Roy Hodgson og varaði hann við vegna stöðunnar á Theo Walcott. Hann hringdi ekki í mig. Fimm mínútna samtal hefði verið nóg. Hann hefði beðið mig um að fara varlega með Aaron og ég hefði hlýtt því. Ég fékk ekkert símtal," sagði Coleman.


Tengdar fréttir

Wenger: Réttu leikmennirnir voru ekki í boði

Arsene Wenger sagði að ástæðan fyrir því að Arsenal hefði ekki bætt við sig leikmanni undir lok félagsskiptagluggans vegna þess að enginn þeirra leikmanna sem í boði voru hefðu verið þess virði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×