Íslenska karlalandsliðið í fótbolta tapaði þriðja leik sínum í röð í gærkvöldi þegar liðið mætti Slóvökum í Zilina í Slóvakíu. Uppskriftin var sú sama og í leiknum á undan.
Ísland var 1-0 yfir í hálfleik eins og í leiknum á undan á móti Póllandi en tapaði leiknum á endanum 3-1.
Ísland tapaði 4-2 á móti Póllandi á útivelli á föstudaginn var og þar á undan töpuðu strákarnir 1-0 í lokaleik sínum í undankeppni EM.
Allar þessar þrjár þjóðir, sem hafa unnið Ísland í þessum þremur síðustu leikjum, eru eins og Ísland, á leiðinni á Evrópumótið í Frakklandi næsta sumar.
Íslenska liðið hefur verið í góðum málum í hálfleik í öllum þessum þremur leikjum og samanlögð markatala liðsins í fyrri hálfleik í þeim öllum er 2-0, Íslandi í hag.
Það hefur aftur á móti ekkert gengið í seinni hálfleik leikjanna og þá sérstaklega í vináttulandsleikjunum tveimur á móti Póllandi og Slóvakíu.
Sjá einnig:Heimir: Fáum á okkur aulaleg mörk
Íslensku strákarnir fengu á sig sjö mörk í seinni hálfleik í þessum tveimur tapleikjum sem þýðir að liðið var þá að fá á sig mark á þrettán mínútna fresti.
Pólverjarnir skoruðu 52., 66., 76. og 79. mínútu en Slóvakarnir skoruðu á 58., 61. og 84. mínútu.
Íslenska landsliðið spilaði ellefu leiki á árinu og fékk á sig fjórtán mörk í þeim. Helmingur þeirra kom því í tveimur seinni hálfleikjum á móti Póllandi og Slóvakíu.
Sjá einnig:Tvær hliðar íslenska karlalandsliðsins
Það vantaði vissulega sterka leikmenn í íslenska liðið í þessum hálfleikjum en það breytir því ekki að það er vandræðaleg tölfræði fyrir lið sem er á leiðinni á EM, að fá á sig mark á þrettán mínútna fresti.

