Óvissustig vegna snjóflóða ríkir enn á norðanverðum og sunnaverðum Vestfjörðum. Mikið austan óveður gekk yfir landið í gær og nótt og er enn slæmt veður á Vestfjörðum. Sumstaðar var mikil úrkoma með veðrinu og þá gjarnan slydda á láglendi en snjókoma til fjalla, en síðan hlýnaði. Í dag mun síðan kólna smám saman aftur.
Talið er að snjór sé að styrkjast víðast hvar á svæðinu en Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður Snjóflóðasetursins á Ísafirði, segir að staðan verði endurmetin einhvern tímann á milli klukkan eitt og þrjú í dag, þegar dregur úr vindi og úrkomu.
Víða er ófært á Vestfjörðum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Er ófært til Flateyrar og Þingeyrar frá Ísafirði og er þungfært yfir á Suðureyri.
Þá er einnig ófært á milli Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar.
