Körfubolti

Sigurganga Golden State Warriors heldur áfram

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Curry fór á kostum í nótt og leikur hér á Patrick Patterson, leikmann Raptors.
Curry fór á kostum í nótt og leikur hér á Patrick Patterson, leikmann Raptors. Vísir/getty
Það virðist ekkert geta stöðvað Stephen Curry og félaga í Golden State Warriors en þeir unnu enn einn leikinn í nótt og hafa nú unnið fyrstu 21 leiki tímabilsins og 25 leiki í röð í deildarkeppninni.

Leikmenn Golden State Warriors þurftu að hafa fyrir sigrinum í gær gegn spræku liði Toronto Raptors en Warriors léku án miðherjans Andrew Bogut og þá er Harrison Barnes meiddur þessa dagana.

Þrátt fyrir að vera án tveggja byrjunarliðsmanna tókst leikmönnum Golden State að kreista út þriggja stiga sigur, 112-109 en Curry átti enn einn stórleikinn með 44 stig.

Hitti Curry úr 9 af 15 þriggja stiga skotum sínum í leiknum en liðið hitti úr 16 af 30 þriggja stiga skotum sínum í leiknum (53,3%).

LeBron James fékk hvíld í liði Cleveland Cavaliers gegn sínum gömlu félögum í Miami Heat eftir að hafa borið liðum á herðum sér í naumu tapi í framlengingu gegn New Orleans Pelicans kvöldið áður.

Cleveland saknaði LeBron og Kyrie í nótt.Vísir/getty
Án James og Kyrie Irving sem er enn að ná sér af meiðslum áttu leikmenn Cleveland fá svör við leik Miami Heat og leiddu heimamenn með átján stigum í hálfleik og unnu að lokum öruggan 15 stiga sigur, 99-84.

Þá vann Los Angeles Clippers nauman 103-101 sigur á Orlando Magic en leikmenn Magic höfðu unnið fimm leiki í röð fyrir leikinn.

Bakverðirnir Chris Paul og JJ. Redick voru ekki með Clippers á heimavelli í nótt vegna meiðsla en það kom ekki að sök.

Jamal Crawford var stigahæstur í liði Clippers með 31 stig en Blake Griffin lauk leik með tvöfalda tvennu, 28 stig og 13 fráköst.

Í liði Orlando voru það ungstirnin Victor Oladipo og Elfrid Payton sem voru stigahæstir með 24 og 21 stig.

Helstu tilþrif gærkvöldsins má sjá í myndbandi hér fyrir neðan sem og bestu tilþrif Curry og Kyle Lowry í leik Toronto Raptors og Golden State Warriors.

Úrslit kvöldsins:

Philadelphia 76ers 105-108 Denver Nuggets

Toronto Raptors 109-112 Golden State Warriors

Miami Heat 99-84 Cleveland Cavaliers

Chicago Bulls 96-102 Charlotte Hornets

Houston Rockets 120-113 Sacramento Kings

Minnesota Timberwolves 103-109 Portland Trailblazers

Milwaukee Bucks 106-91 New York Knicks

San Antonio Spurs 108-105 Boston Celtics

Utah Jazz 122-119 Indiana Pacers

Los Angeles Clippers 103-101 Orlando Magic

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×