Innlent

Óveður á Austurlandi: Bæjarjólatréð í Neskaupstað kubbaðist niður og skip kemst ekki að bryggju

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Neskaupstað
Frá Neskaupstað Vísir/Kristín Svanhvít Hávarðsdóttir
„Það er búið að vera alveg brjálað veður,“ segir Pálmi Benediktsson hjá björgunarsveitinni Gerpi á Norðfirði en bæjarjólatréð í Neskaupstað kubbaðist niður í vestanstorminum sem þar hefur geisað í dag og hefur frysti- og ísfisktogari Síldarvinnslunnar, Barði, ekki komist að bryggju sökum veðurs.

Jólatréð í Neskaupstað brotnaði undan storminum.Vísir/Guðmundur Gíslason.
Stormurinn hefur verið á Norðaustur- og Austurlandi í allan dag og er ekki gert ráð fyrir að það lægi fyrr en seint í kvöld eða í nótt. Hefur flugi til og frá Egilsstaðaflugvelli verið aflýst og hefur vegurinn um Oddsskarð, á milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar, verið lokaður í dag, en þó hefur engin ofankoma fylgt þessu óveðri.

Pálmi segir að ekki hafi verið mikið um útköll þrátt fyrir veðurhaminn. Íbúar hafa farið eftir flestum tilmælum um að halda kyrru fyrir. „Það er búið að vera merkilega rólegt hérna miðað við haminn því það hefur gengið ýmislegt á. Það hafa enginn þök fokið en nokkrar ruslatunnur og auðvitað bæjarjólatréð en fólk hefur bara græjað þetta sjálft,“ segir Pálmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×