Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir er að stimpla sig inn hjá Canisius-skólanum í bandaríska háskólakörfuboltanum og er þegar búinn að krækja í sín fyrstu einstaklingsverðlaun.
Sara Rún var nýliði vikunnar í Metro Atlantic Athletic deildinni en hún átti mjög góða innkomu í 30 stiga sigri á Binghamton á miðvikudaginn var. Þetta kemur fram á heimasíðu skólans.
Sara Rún skoraði 12 stig og hitti úr 83 prósent skota sinna í leiknum. Sara Rún var með átta stig og 58 prósent skotnýtingu í tveimur leikjum vikunnar.
Sara Rún er 19 ára framherji sem var valin í úrvalslið Domino´s deildar kvenna á síðasta tímabili. Hún var einnig kominn í hlutverk hjá íslenska landsliðinu en gat ekki þátt í síðustu leikjum þar sem hún stundar nám í Bandaríkjunum.
Sara Rún Hinriksdóttir og Margrét Rósa Hálfdanardóttir spila báðar með Canisius-skólanum en Margrét Rósa er á sínu öðru ári og þegar komin í mjög stórt hlutverk hjá liðinu.
Íslensku stelpurnar verða aftur í sviðsljósinu um komandi helgi þegar Canisius-skólinn spilar tvo leiki, fyrst á móti Saint Peter skólanum á föstudaginn og svo aftur á móti Rider-skólanum á sunnudaginn.

