Stormur gengur nú yfir landið. Verst verður veðrið norðvestanverðu landinu. Nú er mikill vindur á Vestfjörðum og á Snæfellsnesi við Breiðafjörð, þar sem hann mælist rétt undir 20 metrum á sekúndu. Hvassast er á norðanverðum Vestfjörðum. Þar er þó ekki mikil úrkoma.
Vindurinn er hægari austar á landinu, en þar er aftur á móti mikil úrkoma samkvæmt Veðurstofu Íslands.
Á annesjum fyrir norðan er svo bæði hvasst og úrkoma, en þó ekki jafn hvasst og fyrir vestan né eins mikil úrkoma og fyrir austan. Í raun er leiðindaveður um allt norðanvert landið.
Þegar líður á kvöldið fer að lægja á Vestfjörðum þó áfram verði hvasst fram á nóttina og svipaða sögu er að segja af Austfjörðum. Þar mun draga úr úrkomu á næstu klukkustundum, en á Norðausturlandi verður áfram nokkuð þétt úrkoma fram á nótt.
Stormur um landið norðvestanvert
Samúel Karl Ólason skrifar
