Fótbolti

Hitzfeld: Guardiola fer til Man City næsta sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola í jólaskapi.
Guardiola í jólaskapi. vísir/getty
Pep Guardiola verður ráðinn knattspyrnustjóri Manchester City næsta sumar. Þetta segir Ottmar Hitzfeld, fyrrverandi stjóri Bayern München og fleiri liða.

Samningur Guardiola við Bayern rennur út í sumar en hann hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning við félagið og framhaldið hjá Spánverjanum er óljóst.

Guardiola er eftirsóttasti stjórinn í bransanum og hann hefur m.a. verið orðaður við Manchester-liðin, United og City.

Hitzfeld, sem gerði Bayern fimm sinnum að þýskum meisturum á sínum tíma auk þess að vinna Meistaradeild Evrópu árið 2001, segir að sú staðreynd að Guardiola sé ekki búinn að endurnýja samning sinn við Bayern bendi til þess að hann sé á förum frá félaginu.

„Ég tel að Pep muni yfirgefa Bayern og Manchester City mun reyna að fá hann til félagsins, sama hvað það kostar,“ sagði Hitzfeld.

Guardiola er á sínu þriðja tímabili með Bayern en á þeim tíma hefur liðið unnið þýsku deildina í tvígang, þýsku bikarkeppnina einu sinni, Ofurbikar Evrópu og HM félagsliða.

Bayern tekur á móti Darmstadt 98 í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×