Við hönnunina segist hún hafa verið undir áhrifum íslenskra jurta, lækningamáttar þeirra og útlits en líka þeirra kvenna sem höfðu þekkinguna til þess að nýta sér jurtirnar. Reyndar hefur galdur mikla merkingu í huga Hildar. „Í mínum huga hefur galdur stærri merkingu og margar þeirra kvenna sem veita mér innblástur eru göldróttar á einhvern hátt,“ segir hún.

Hildur útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Frá útskrift hefur hún að mestu unnið við hönnun auk þess sem hún hefur verið að kenna tískuteikningu við LHÍ. „Ég var fyrst mest í að gera aukahluti en hef undanfarin ár verið meira að hanna flíkur.“ Hún gerir þó enn aukahluti og sendir nú einnig frá sér skartgripalínu samhliða fatalínunni. „Skartið er unnið úr íslenskum bergkristöllum eða ferskvatnsperlum og silfri.

Hún segir þó að margt mætti gera betur á Íslandi varðandi fatahönnun, þá helst þegar kemur að framleiðslu. „Ég væri til í að sjá meiri framleiðslumöguleika á Íslandi. Það væri æðislegt ef það væri hægt að sauma föt hérna í framleiðslu því það er kostnaðarsamt að gera þetta allt úti.“
Hún segist þó una sér vel á Íslandi og myndi ekki vilja búa annars staðar. „Mér finnst gott að fara út í nokkra mánuði í senn. Það er nauðsynlegt að vera annars staðar, fá hugmyndir, skoða nýja staði og fá innblástur.“

Í tilefni af komu nýju línunnar hefur Hildur í samstarfi við Sögu Sigurðardóttur ljósmyndara tekið myndir af konum, sem veita Hildi innblástur á einhvern hátt, í fötum úr línunni. „Mig langaði að velja einhverja svona karaktera sem veita mér innblástur. Þetta eru flottar týpur eins og Dóra Takefusa, Jófríður úr Samaris, Snæfríður Ingvarsdóttir, Hanna María, mamma Sögu og Ronja fósturdóttir hennar sem er 8 ára, svo einhverjar séu nefndar,“ segir hún.
Sýning á myndunum verður opnuð í Kiosk 17. desember.
Hér má sjá Facebook- síðu Hildar.