Erlent

Pútín skipar herliði sínu að sýna aukna hörku í Sýrlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rússlandsforseti hefur skipað herjum sínum að granda hverju því sem ógni herliði Rússa í Sýrlandi.
Rússlandsforseti hefur skipað herjum sínum að granda hverju því sem ógni herliði Rússa í Sýrlandi. Vísir/Getty
Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur skipað herjum sínum að granda hverju því sem ógni herliði Rússa í Sýrlandi

„Ég hef skipað herliði okkar að sýna aukna hörku,“ sagði Pútín á fundi með embættismönnum í varnarmálaráðuneyti Rússlands. „Hver sá sem ógnar herjum okkar eða búnaði á jörðu niður verður grandað án tafar.“

Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í september að sögn eftir óskir Bashir al-Assad Sýrlandsforseta. Pútín og embættismenn Rússa hafa þvertekið fyrir ásakanir Bandaríkjamanna og bandamanna um að loftárásir þeirra beinist fyrst og fremst að uppreisnarmönnum í Sýrlandi, fremur en ISIS.

Tyrkir og Rússar hafa staðið í stappi síðan Tyrkir skutu niður rússneska herþotu á landamærum Sýrlands og Tyrklands. Tyrkir segja að þotan hafi flogið innan landamæra Tyrklands en Rússar þvertaka fyrir þetta.

Rússar hafa beitt efnahagsþvingunum á Tyrkland í kjölfarið og nú munu herþotur og eldflaugakerfi á jörðu niðri veita rússneskum loftárásarsveitum aukna vernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×