Innlent

Tveggja ára fangelsi fyrir smygl á kókaíni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Marcelo mætir í fylgd fangavarða í dómssal í Héraðsdómi Reykjaness.
Marcelo mætir í fylgd fangavarða í dómssal í Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Vilhelm
Marcelo Da Silva Jordao, 39 ára gamall Brasilíumaður, hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir innflutning á tæplega tveimur kílóum af kókaíni í lok ágúst. Hann neitaði að hafa verið meðvitaður um að í farangri hans væru fíkniefni. Bar hann því við að kunningjakona hans hefði lánað honum tösku og séð um að pakka fyrir hann þar sem hann var í tímaþröng.

Við aðalmeðferð málsins sem blaðamaður sat gagnrýndi saksóknari mjög framburð Marcelo og sagðist aldrei hafa heyrt aðra eins frásögn. Velti hún upp þeirri spurningu hvort hann hefði yfirhöfuð klætt sig sjálfur áður en hann hélt í ferðina til Íslands.

Í málsvörn Marcelo kom fram að hann væri „nytsamur sakleysingi“ og dansari, sveimhugi sem ferðist um heiminn án þess að skipuleggja hlutina til þaula. Dómari féllst á að sönnun væri komin fram um að Marcelo hafi verið meðvitaður um fíkniefnin og dæmdi hann til tveggja ára fangelsisvistar. Til frádráttar kemur rúmlega fjögurra mánaða gæsluvarðhald.

Hulda María Stefánsdóttir sótti málið fyrir ríkissaksóknara en Saga Ýrr Jónsdóttir og síðar Stefán Karl Kristjánsson gegndu stöðu verjanda Marcelo. Dóminn í heild má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×