Tónlist

Nýtt efni frá Young Karin í mars

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Karin Sveinsdóttir er söngkona Young Karin.
Karin Sveinsdóttir er söngkona Young Karin. vísir/ernir
Hljómsveitin Young Karin er um þessar mundir að vinna að útgáfu fyrstu plötu sinnar. Nýtt efni frá sveitinni lítur dagsins ljós í næsta mánuði.

„Það er enn ekki komið í ljós hve mikið það verður,“ segir Logi Pedro Stefánsson en hann myndar sveitina ásamt Karin Sveinsdóttur. Til stóð að gefa út myndband undir lok síðasta árs en það frestaðist.

Logi Pedro Stefánsson
Hljómsveitin var meðal þeirra sem fram komu á Eurosonic-hátíðinni í Groningen í Hollandi. Logi segir að það hafi skilað sér vel. „Viðbrögðin sem við fengum voru mjög jákvæð og við höfum heyrt af áhuga héðan og þaðan.“ 

Líkt og áður hefur verið sagt standa nú yfir upptökur sveitarinnar á nýju efni. Vinnsla þess fer fram í hljóðveri sem Júlíus Agnarsson heitinn átti. 

„Við fengum þarna inni og þetta er rosalega flott. Það voru einhverjir danskir hljóðnördar sem útbjuggu það þegar þeir ætluðu í útrás til Íslands,“ segir Logi.

Í fyrra spilaði Young Karin meðal annars í Seattle og Toronto við góðar undirtektir. Hann segir að það sé enginn asi á þeim að spila eða koma plötu út. Þau liggi á haug af góðu efni og ætla að skila því frá sér á sem bestan hátt.

„Við erum bókuð á hátíð í Texas núna í mars en það er spurning hvernig fer með hana. Það getur verið bæði dýrt og erfitt að spila í Ameríku. Þetta kemur allt í ljós,“ segir Logi Pedro.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×