Meðal hinna ákærðu eru Jeffrey Webb, varaforseti FIFA og forseti CONCACAF, knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku og Karíbahafsins, og Eugenio Figueredo, varaforseti FIFA og fyrrverandi forseti CONMEBOL, knattspyrnusambands Suður-Ameríku.
Báðir sitja mennirnir í framkvæmdastjórn FIFA. Einn mannanna, Costas Takkas, er minni spámaður en hinir, hann er ráðgjafi Webbs. Sepp Blatter, forseti FIFA, er ekki á meðal hinna ákærðu.

Ríkissaksóknari Bandaríkjanna, Loretta Lynch, tilkynnti í morgun um ákærurnar og sagði spillinguna innan FIFA kerfisbundna og að hún hefði skotið rótum sínum djúpt. Rannsókn á málinu hefur verið í höndum FBI í samstarfi við ríkissaksóknara Sviss.
Walter De Gregorio, fjölmiðlafulltrúi FIFA, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gærmorgun.
Hann sagði FIFA hafa hafið ferlið með beiðni um rannsókn til ríkissaksóknara Sviss 18. nóvember og segir sambandið hafa sýnt mikinn samstarfsvilja og afhent ríkissaksóknaranum Garcia-skýrsluna svokölluðu. Garcia-skýrslan er 350 blaðsíður, skrifuð á árunum 2012 til 2014, sem Michael Garcia, bandarískur saksóknari, tók saman fyrir FIFA vegna ásakana um spillingu innan FIFA, þá sérstaklega í aðdraganda kosninga um hvar skyldi halda HM 2018 og 2022. Þá skýrslu hefur FIFA ekki viljað birta almenningi.
FIFA fórnarlambið í málinu
De Gregorio er á því því að FIFA sé fórnarlambið í þessu máli. „Við hlökkum til að fá niðurstöðu í málið. Því lengur sem það er opið er hægt að rangtúlka það,“ sagði De Gregorio um málið.
De Gregorio sagði Blatter ekki þurfa að axla ábyrgð á málinu þar sem hann væri ekki í hópi hinna ákærðu.
Ársþing FIFA á að fara fram næstu helgi og forsetakosningar sömuleiðis. Jórdanski prinsinn Ali Bin Al Hussein býður sig fram gegn Blatter. Prinsinn nýtur trausts Knattspyrnusambands Evrópu.
Geir Þorsteinsson, forseti KSÍ, segir að málið hljóti að hafa áhrif á stuðning við Blatter
„Maður veltir því fyrir sér hvort kosningin geti yfirhöfuð farið fram vegna þessara atburða,“ sagði Geir.
Aðspurður sagði De Gregorio að málið myndi engu fresta.