Erlent

Enn ein ögurstundin leið hjá

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Forsætisráðherra Grikklands fékk léttan löðrung í gær frá forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en Juncker á slíkt til þegar sá gállinn er á honum.
Forsætisráðherra Grikklands fékk léttan löðrung í gær frá forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en Juncker á slíkt til þegar sá gállinn er á honum. nordicphotos/AFP
Fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna hittust í Brussel í gær til að ræða skuldavanda Grikkja. Stuttu fyrir fundinn sendu Grikkir nýjar tillögur, og seðlabanki Evrópusambandsins hafði samþykkt að gefa þeim meira svigrúm.

Lítill árangur varð samt af fundinum. Að einhverju leyti skrifast það á klúður grískra stjórnvalda, sem höfðu um helgina sent skjal með tillögum sínum til Brussel, en svo kom í ljós rétt fyrir fundinn að þetta var ekki rétta skjalið. Þá var orðið of seint að vinna úr tillögunum.

Bæði grísk stjórnvöld og ráðamenn í Evrópusambandinu höfðu sagt gærdaginn vera úrslitadag. Ef ekki tækist að semja þá, væru Grikkir líklega búnir að missa af síðasta tækifærinu til að bjarga sér með samningum.

Engu að síður verður áfram reynt að ná niðurstöðu og er vonast til þess að það takist síðar í vikunni.

Jeroen Dijsselbloem, forseti samstarfshóps evruríkjanna, sagðist fagna tillögum Grikkja þótt þær hafi borist of seint: „Það er litið á þær sem jákvætt skref í þessu ferli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×