Leikur Minnesota Vikings og Seattle Seahawks í úrslitakeppni NFL-deildarinnar á sunnudag verður ekki fyrir neinar kuldaskræfur.
Leikurinn fer fram utandyra og spáin er köld. Mjög köld. Spáin hljómar í dag upp á mínus 18 gráður er leikur hefst. Með vindkælingu mun kuldinn líklega verða í kringum mínus 28 gráður.
Verið er að byggja nýjan völl fyrir Vikings sem verður innandyra. Þeir eru að klára tveggja ára skeið utandyra á meðan beðið er eftir nýju höllinni.
Kaldasti leikur þeirra síðustu tvö ár fór fram í ellefu gráðu frosti. Þetta er eitthvað allt annað sem bíður á sunnudag.
Kaldasti leikurinn í sögu NFL fór fram 31. desember árið 1967 er Green Bay tók á móti Dallas. Sá leikur hefur alltaf verið kallaður „Ice Bowl“ enda var það úrslitaleikur deildarinnar. Hitastigið á þeim leik var mínus 25 gráður.
Kaldasti leikurinn í sögu Vikings fór fram 3. desember árið 1972 er Chicago kom í heimsókn. Þá var hitastigið mínus 18 gráður.
Allir leikirnir í úrslitakeppni NFL-deildarinnar verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Úrslitakeppnin hefst um helgina en þá verða tveir leikir spilaðir á laugardag og aðrir tveir á sunnudag.

