Nemanja Ilic, vinstri skytta serbneska landsliðsins, missir af EM vegna meiðsla sem hann hlaut í vináttulandsleik gegn Rúmeníu á dögunum.
Ilic, sem leikur með Toulouse og er næstmarkahæsti leikmaður frönsku úrvalsdeildarinnar, fingurbrotnaði í leiknum og þarf að fara í aðgerð.
Ljós er að Serbía verður án margra lykilmanna á mótinu en Marko Vujin, leikmaður Kiel, hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans Dejan Peric, auk þess sem stórskyttan Momir Ilic er meiddur.
Serbar náðu frábærum árangri þegar liðið vann silfurverðlaun á EM 2012 á heimavelli en þeim hefur gengið illa að fylgja eftir þeim árangri og komust svo ekki á HM sem fór fram í Katar í fyrra.
Ísland er að berjast fyrir því að komast í undankeppni Ólympíuleikanna í Ríó. Tvö sæti eru eftir fyrir Evrópuþjóðir og er Serbía meðal þeirra þjóða sem Ísland er að berjast við um annað þeirra.
