Í dag verður norðaustanátt á landinu og má búast við vindhraða á bilinu 10 til 15 metra á sekúndu. Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins verði í skjóli af Esjunni fram eftir degi en norðanáttin gæti náð sér á strik síðdegis, sér í lagi í Vesturbænum.
Norðaustan til á landinu mun vindurinn láta bíða eftir sér fram að hádegi. Búast má við éljagangi fyrir norðan sem ágerist þegar líður á daginn. Annars staðar verður úrkomulaust að mestu.
Veðurfræðingurinn minnist þó á að skammt suður af landinu sé snjókomubakki sem gæti dreift úr sér um tíma allra syðst. Búast má við frosti, 3 – 8 stigum, í dag.
Næstu dagana verður norðanáttin allsráðandi og áfram kalt. Fyrir norðan og austan, mun snjóa en lítil sem engin úrkoma um landið sunnanvert. Norðanáttin gæti orðið hvöss á mánudaginn, en hægari hina dagana.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Norðan 8-13 m/s og víða bjartviðri, en dálítil él við sjávarsíðuna. Frost 3 til 10 stig.
Á mánudag:
Norðaustan 13-18 m/s og éljagangur, en hægara og bjartviðri syðra. Frost 0 til 5 stig.
Á þriðjudag:
Norðvestan 13-15 m/s og él A-lands, en annars hægara og úrkomulítið. Harðnandi frost.
Á miðvikudag:
Hægviðri og léttskýjað framan af degi, en síðan vaxandi austanátt og él við S-ströndina. Talsvert frost um land allt.
Á fimmtudag og föstudag:
Útlit fyrir ákveðna norðaustanátt með éljum eða snjókomu, en úrkomulítið SV-til. Áfram kalt í veðri.
Norðanáttin gæti náð sér á strik síðdegis í Vesturbænum
Birgir Olgeirsson skrifar
