Sex hús hafa verið rýmd á Patreksfirði eftir að lýst var yfir hættustigi vegna snjóflóða. Var rýmingarreitur 4 á Patreksfirði rýmdur en um er að ræða sex hús sem standa við Urðargötu.
Átján manns búa í þessum sex húsum og fóru fimm þeirra í fjöldahjálparstöð Rauðakrossdeildarinnar á Patreksfirði sem hefur verið komið upp á Fosshótelinu í byggðarlaginu.
Nú er austan bylur á svæðinu með ofankomu og skafrenningi. Spáð er áframhaldandi stormi og að það bæti í snjókomu í kvöld. Staðan verður endurmetin á morgun.
