Körfubolti

Jakob innsiglaði sigurinn í síðasta Evrópuleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Vísir/Stefán
Jakob Örn Sigurðarson og félagar hans í sænska körfuboltaliðinu Borås Basket fögnuðu í kvöld sínum öðrum sigri í milliriðli FIBA Europe Cup.

Borås Basket vann fimm stiga sigur á pólska liðinu Slask Wroclaw, 80-75, eftir að hafa verið tveimur stigum undir í hálfleik.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði átta stig í leiknum þar á meðal tvö síðustu stig Borås Basket sem komu á vítalínunni og innsigluðu sigurinn.

Jakob var einnig með 3 fráköst og 3 stoðsendingar en hann hitti úr 2 af 8 skotum utan af velli og setti niður öll fjögur vítin sín. Jakob náði ekki að hitti úr fimm þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Þetta var síðasti Evrópuleikur Jakobs og félaga á tímabilinu en Borås Basket liðið er úr leik.

Það voru fleiri Íslendingar á vellinum í Borås því Sigmundur Már Herbertsson var einn þriggja dómara leiksins.

Bandaríkjamaðurinn Omar Krayem var stigahæstur hjá Borås Basket með 21 stig auk þess að gefa 6 stoðsendingar en Svíinn Christian Maråker kom næstur með 15 stig.

Bæði lið Borås Basket og Slask Wroclaw voru úr leik fyrir leikinn en Telenet Oostende frá Belgíu og Türk Telekom frá Tyrklandi urðu í tveimur efstu sætum riðilsins og fara í sextán liða úrslitin.

Borås Basket tryggði sér hinsvegar þriðja sætið í riðlinum en liðið vann báða leiki sína á móti pólska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×