Embætti héraðssaksóknara hefur fellt niður niður mál manns sem var kærður af ungri konu fyrir nauðgun í íbúð í Hlíðunum í Reykjavík í september í fyrra. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi fyrst frá málinu en Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir þetta í samtali við Vísi.
Áður hafði máli tveggja manna, sem kærðir voru fyrir nauðgun í sömu íbúð í Hlíðunum, verið fellt niður hjá embætti héraðssaksóknara.
Ólafur segir þá sem kærðu í þessum málum eiga möguleika á að bera þau undir ríkissaksóknara ef þeir una ekki niðurstöðunni.
Málin vöktu mikla athygli og var meðal annars boðað til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem aðgerðarleysi lögreglunnar var mótmælt. Sú ákvörðun lögreglu að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sætti sérstakri gagnrýni.
Mikil umræða spannst einnig um málið á samfélagsmiðlum og streymdu inn færslur á Twitter með umræðumerkinu #almannahagsmunir.
