Innlent

Óvenjulágt óson yfir Íslandi: Fólk noti sólgleraugu og sólarvörn um helgina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rík ástæða er til þess að verja sig gegn geislum sólar um helgina.
Rík ástæða er til þess að verja sig gegn geislum sólar um helgina. vísir/ernir
Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að óvenjulágt óson mælist nú yfir landinu og er spáð lágu ósoni yfir helgina og sólríku veðri víða. Því er rík ástæða til þess að verja sig gegn geislum sólar, til dæmis með því að nota sólgleraugu og sólarvörn, ef útivistarfólk er um lengri tíma í sól þar sem snjór hylur einnig jörðu.

Í dag er spáð austlægri átt, víða 8 til 13 metrum á sekúndu en hvassari norðvestan til og allra syðst. Dálítil él víða um land, en úrkomulítið vestanlands. Á morgun lægir og léttir smám saman til en síðan vaxandi suðaustanátt og annað kvöld fer að snjóa suðvestanlands. Frost á bilinu 1 til 15 stig, kaldast á Norðvesturlandi, en frostlaust með suðurströndinni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag:

Fremur hæg breytileg átt og víða léttskýjað, en stöku él við sjávarsíðuna. Frostlaust syðst og vestast, en frost annars allt að 18 stigum.

Á mánudag:

Gengur í suðaustan 18-25 m/s með slyddu eða snjókomu S- og V-lands, en rigningu seinni partinn. Mun hægara og úrkomulítið NA-til fram á kvöld, en hvessir síðan og snjóar þar. Hlýnandi veður og hiti 0 til 5 stig um kvöldið.

Á þriðjudag:

Suðvestan 8-13 m/s og él framan af degi, en gengur síðan í norðan og norðvestan 13-20 með snjókomu eða slyddu, hvassast og úrkomumest SA-til. Kólnandi veður.

Á miðvikudag:

Hæg breytileg átt og stöku él. Talsvert frost.

Á fimmtudag:

Suðlæg átt og snjómugga, en úrkomulítið N-til og kalt í veðri.

Á föstudag:

Austlæg átt og snjókoma með köflum, en áfram kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×