Körfubolti

Margrét Rósa stigahæst í sigri á erkifjendunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Rósa Hálfdanardóttir og Sara Rún Hinriksdóttir.
Margrét Rósa Hálfdanardóttir og Sara Rún Hinriksdóttir. Vísir/Stefán
Margrét Rósa Hálfdanardóttir fór fyrir liði Canisius College þegar liðið vann nágranna sína í Niagara í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt.

Canisius College vann leikinn 54-45 eftir að hafa verið undir í hálfleik, 23-27. Frábær þriðji leikhluti lagði grunninn að sigrinum.

Þessi sigur körfuboltaliðs Canisius College tryggði skólanum jafnfram sigur á Niagara í Canal Cup sem er íþróttakeppni milli skólanna tveggja.

Margrét Rósa Hálfdanardóttir var með 13 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum en hún hitti úr 5 af 7 skotum sínum og 3 af 4 vítaskotum. Margrét Rósa var reyndar með 6 tapaða bolta í leiknum en stal einum til baka.

Sara Rún Hinriksdóttir kom með 2 stig inn af bekknum og komu þau bæði af vítalínunni.  Sara Rún er á sínu fyrsta ári í skólanum.

Canisius College vann þarna sinn þrettánda sigur á tímabilinu en liðið náði sínum besta árangri á heimavelli síðan 2008-09 tímabilið.

Lokaleikur Canisius College í deildarkeppninni er á laugardaginn á útivelli á móti Lovísu Henningsdóttur og félögum í Marist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×