Körfubolti

Tvenna Kristófers ekki nóg og Furman úr leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristófer Acox spilaði með Íslandi á Smáþjóðaleikunum í fyrra.
Kristófer Acox spilaði með Íslandi á Smáþjóðaleikunum í fyrra. vísir/ernir
Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, og félagar hans í Furman-háskólanum komust ekki í úrslitaleik suðurdeildarinnar, en Furman tapaði fyrir East Tennessee State í undanúrslitum í nótt, 84-76.

Furman hafnaði í þriðja sæti deildarinnar en East Tennessee í öðru sæti. Það mætir svo Chattanooga í úrslitaleiknum en sigurvegarinn þar kemst í sjálfa úrslitakeppnina, March Madness, þar sem 64 bestu lið bandarísku háskólakörfunnar leiða saman hesta sína.

Þetta var í þriðja sinn sem Furman og East Tennessee mætast en þau unnu sitthvorn leikinn í deildakeppninni. Kristófer skoraði tíu stig í sigurleiknum gegn ETSU í deildinni en 16 stig í tapleiknum.

Kristófer Acox átti flottan leik í nótt. Hann var næst stigahæstur í liði Furman með 17 stig og tók lang flest fráköst eða ellefu stykki. Hann gaf eina stoðsendingu, stal einum bolta og hitti úr sjö af tólf skotum sínum í leiknum.

Kristófer lauk tímabilinu með 9,1 stig að meðaltali í leik sem er 2,1 stigum meira en í fyrra, en frákastameðaltal hans lækkaði úr 7,8 í leik í 5,8. Enginn tók fleiri fráköst en KR-ingurinn á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×