Körfubolti

Jón Arnór stigalaus í sigri Valencia

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í leik með íslenska landsliðinu.
Jón Arnór Stefánsson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Daníel
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Valencia komust aftur á sigurbraut í dag þegar liðið vann fimm stiga útisigur á Fuenlabrada, 86-81, í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Valencia-liðið hafi tapað tveimur leikjum í röð í öllum keppnum og jafnframt þremur leikjum af síðustu fimm. Þetta var því kærkominn sigur fyrir liðið í baráttunni um toppsæti deildarinnar við Barcelona.

Jón Arnór spilaði í 14 mínútur og 34 sekúndur í leiknum en náði ekki að skora. Hann klikkaði á báðum skotum sínum. Jón Arnór var með 2 fráköst, 2 stoðsendingar og 1 stolinn bolta.

Það dreifðist vel stigaskorið á leikmenn Valencia en þrír leikmenn voru stigahæstir með fimmtán stig eða þeir Fernando San Emeterio, John Shurna og Justin Hamilton en þeir Luke Sikma (13 stig) og Rafa Martínez (13 stig) voru ekki langt undan.

Leikurinn var jafn og spennandi en Valencia-liðið var með þriggja stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann (18-15), það var jafnt í hálfleik (37-37) en Valencia leiddi með fimm stigum, 63-58, fyrir lokaleikhlutann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×